Bréf til Mennta- og menningarmálaráðuneytis

Ályktun Útinámsráðstefnunnar 2016 á Úlfljótsvatni 17. og 18. september

Helgina 17. og 18. september hélt Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni og Samtök áhugafólks um útinám ráðstefnu um útinám. Ráðstefnan var styrkt af Evrópu unga fólksins og Erasmus+. Ráðstefnan tókst með eindæmum vel en yfir 100 kennarar af öllum skólastigum, tómstundafræðingar og annað fagfólk sóttu hana. Fyrirlesarar komu frá Tékklandi, Slóvenínu, Englandi, Skotlandi, Pólandi og Íslandi og héldu yfir 30 erindi og smiðjur. Fjallað var um útinám á ýmsum sviðum, allt frá útieldun og útistærðfræði yfir í kynningar á nýjum alþjóðlegum rannsóknum á sviði útináms.

Mennta-og menningarmálaráðuneytinu var boðið að senda fulltrúa á ráðstefnuna en hafði því miður ekki tök á því. Kveðja ráðuneytisins var flutt fundarmönnum við upphaf ráðstefnunnar. Ráðuneytið óskaði hins vegar eftir tillögum og hugmyndum frá ráðstefnugestum um málefni útináms. Það er sönn ánægja að verða við þeirri ósk.

Útinám hefur fjölbreyttu og mikilvægu hlutverki að gegna í skóla- og frístundastarfi, þ.e. í formlegu og óformlegu námi. Fjölmargar rannsóknir hafa leitt í ljós mikilvægi þess m.a. er varðar persónulegan- og félagslegan þroska, skilning okkar á umhverfi og náttúru sem og til eflingar heilbrigðis og líkamlegrar færni. Útinám hefur enn fremur mjög jákvæð áhrif á annað nám og stuðlar þannig að bættum árangri á öðrum sviðum menntunar sem og aukinni ánægju í námi.

Þátttakendur ráðstefnunnar leggja fram eftirfarandi tillögur og hugmyndir:

Mennta- og menningarmálaráðuneytið marki stefnu um útinám í skóla- og frístundastarfi. Mikilvægt er að læra af reynslu annarra landa þar sem unnið er með útimenntun með markvissum hætti t.d. í Tékklandi, Slóveníu, Skotlandi, Ástralíu og Svíþjóð.
Innleiða útinám með markvissum hætti í námskrá og hafa til hliðsjónar stöðu útnáms í skosku námskránni. Vænleg leið er að gera sérrit um útinám sem og að skilgreina ákveðið marga daga á ári sem nemendur í grunnskóla eiga rétt á að dvelja í skólabúðum.
Styðja þarf með sérstökum hætti við starfsemi skólabúða og við námsferðir nemenda enda sýna rannsóknir að þær geta skilað miklum árangri, styrkt skólastarf og stuðla að velferð ungmenna.
Vinna þarf markvisst að auknum gæðum í starfi skólabúð m.a. með rannsóknum og markvissum viðmiðum um gæði (taka t.d. mið að viðmiðum um “brilliant residential” sem er afrakstur rannsókna í Englandi www.learningaway.org.uk). Þessi viðmið stuðla m.a. að markvissari tengslum skólastarfs við það uppeldisstarf sem fram fer í skólabúðum.
Nemendum og kennurum sé gert kleift að fara í námsferðir og skólabúðir án þess að fjárhagsleg staða hindri það. Leita þarf fjölbreyttra leiða t.d. styrkja starfsemi skólabúða beint og fjármagna laun kennara.
Mikilvægt er að útinám sé liður í menntun fagfólks á sviði uppeldis-, tómstunda- kennslufræða.
Í tengslum við ráðstefnuna var skerpt á áherslum samtaka náttúru- og útiskóla sem fól í sér að breyta nafni samtakanna og skilgreina betur tilgang og leiðir. Samtökin heita nú Samtök áhugafólks um útinám. Nánari upplýsingar eru á www.utinam.is Samtökin lýsa yfir vilja sínum að eiga samstarf við Mennta- og menningarmála-ráðuneytið um þess mál.
Samtökin lýsa yfir vilja sínum að eiga samstarf við Mennta- og menningarmála-ráðuneytið um þess mál.