Aðafundur Samtaka áhugafólks um útinám

Stjórn Samtaka áhugafólks um útinám boðar til aðalfundar félagsins þann 9. febrúar 2017. Fundurinn hefst klukkan 16:10 í Hlöðunni við frístundamiðstöðina Gufunesbæ.

Samkvæmt lögum samtakanna þarf að boða fundinn tryggilega en það er gert með tölvupósti, á heimasíðu samtakanna Utinam.is og á Facebook síðu samtakanna með viðburði.

Sérstaklega er vakin athygli á því að allir skuldlausir félagar hafa atkvæðisrétt en fundurinn er annars opin öllum. Hægt er að gera upp félagsgjaldið hjá gjaldkera á fundinum hafi það ekki verið gert áður. Árgjald var sent á alla skráða félagsmenn í janúar 2017 og ætti að hafa birst í heimabanka viðkomandi.

11. grein laganna segir:

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum samtakanna. Aðalfund skal halda árlega, eigi síðar en fyrir lok aprílmánaðar. Skuldlausir félagar eiga rétt til setu á aðalfundi með málfrelsi, tillögu- og atkvæðarétt. Hann skal boða með tryggilegum hætti með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Í fundarboði skal tilgreina fundarefni. Stjórn félagsins skipuleggur og ber ábyrgð á framkvæmd aðalfundar.

Dagskrá aðalfundar skal vera:
• Skýrsla stjórnar
• Endurskoðaðir reikningar félagsins
• Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
• Ákvörðun um árgjöld
• Lagabreytingar
• Kosning stjórnar
• Kosning skoðunarmanna reikninga
• Önnur mál

Samkvæmt 12. grein laga félagsins geta félagsmenn sent inn lagabreytingatillögur fyrir 1. Febrúar. Lögin má finna á heimsíðu félagsins utinam.is. Þegar þetta boð er sent út hafa engar slíkar tillögur borist.

12. grein
Aðalfundur er lögmætur ef rétt er til hans boðað. Lögum samtakanna má aðeins breyta á aðalfundi. Tillögur um lagabreytingar skulu berast stjórn skriflega fyrir 1. febrúar ár hvert og skal þess getið í aðalfundarboði. Einfaldur meirihluti ræður í öllum atkvæðagreiðslum í samtökunum.

Stjórn leggur fram eftirfarandi tillögur á fundinum:

Ákvörðun um árgjöld:

Lagt er til að árgjald verði það sama fyrir næsta starfsár og árið 2017. 1500 krónur. Árgjaldið veðri lagt á í janúar 2018 líkt og í ár. Það verði sent inn í heimabanka félagsmanna sem valgreiðsla og að þjónustugjald banka leggist ofan á það.

Kosning Stjórnar:

Lög félagsins segja:

6. gr.
Stjórn Samtaka áhugafólks um útinám skal skipuð fimm aðalmönnum (formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda) og tveimur til vara. Á oddatölu ári skulu formaður, ritari og meðstjórnandi kosnir til tveggja ára, hitt árið eru varaformaður og gjaldkeri kosnir. Varamenn stjórnar, skoðunarmaður reikninga ásamt öðrum til vara skulu kosnir árlega. Formaður boðar stjórnarmenn á stjórnarfundi a.m.k. tvisvar á ári og oftar ef þurfa þykir og annast daglega umsjón félagsins.

Samkvæmt því skal í ár kjósa formann, ritara og meðstjórnanda til tveggja ára.

Formaður hefur óskað eftir því að stíga til hliðar en varaformaður Hafsteinn Grétarsson hefur gefið kost á sér í það verkefni.

Ritari, Guðmundur Finnbogason hefur gefið kost á sér til áframhaldandi setu.

Meðstjórnandi, Klara Öfjörð Sigfúsdóttir hefur gefið kost á sér til áframhaldandi setu.

Fráfarandi formaður, Jakob Fríman Þorsteinsson, hefur gefið kost á sér til setu sem varaformaður í stað fráfarandi varaformans.

Varamennirnir Hrafnhildur Sigurðardóttir og Ævar Aðalsteinsson hafa bæði gefið kost á sér til áframhaldandi setu.

Skoðunarmenn reikninga þau Nils Óskar Nilsson og Ásgerður Ólafsdóttir hafa bæði gefið kost á sér til áframhaldandi setu.

Hafi félagsmenn áhuga á að gegna þessum embættum eru þeir hvattir til að gera grein fyrir sér fyrir fundinn á facebook viðburði eða á fundinum sjálfum.