SamanÚTI 2018 næstu helgi

Þá er komið að ráðstefnunni SamanÚTI en hún fer fram næstu helgi (17.mars – 18.mars) á Laugarvatni. Á ráðstefnunni er þétt dagksrá tileinkuð útinámi. Að þessu sinni fengu samtökin til sín Richard Irvine frá Outdoor Learning (http://richardirvine.co.uk/) til að koma og taka þátt í ráðstefnunni. Ennþá er hægt að skrá sig á ráðstefnuna, sjá nánari upplýsingar hér: http://utinam.is/?page_id=1307 .

Fundarboð aðalfundar Samtaka áhugafólks um útinám

Stjórn Samtaka áhugafólks um útinám boðar til aðalfundar félagsins þann 17.mars 2018. Fundurinn hefst klukkan 18:30 í íþróttamiðstöðinni á Laugarvatni.

Dagskrá aðalfundar:
• Skýrsla stjórnar
• Endurskoðaðir reikningar félagsins
• Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
• Ákvörðun um árgjald
• Lagabreytingar
• Kosning stjórnar
• Kosning skoðunarmanna reikninga
• Önnur mál

 

Bestu kveðjur,
Stjórnin

Saman ÚTI 2018 – Ráðstefna

Samtökin halda nú, í þriðja sinn, ráðstefnu um útinám. Að þessu sinni fer ráðstefnan fram á Laugarvatni í einstöku umhverfi. Boðið verður upp á fjölbreytt úrval fyrirlestra og verklegra smiðja þar sem að margt af okkar færasta útinámsfólki sýnir hvað það er að gera í sínum störfum. Við hvetjum alla áhugasama til að taka dagana frá og koma svo og njóta fræðslu og samveru á Laugarvatni. Um leið er kallað eftir því að áhugasamir fyrirlesarar sendi okkur línu hér á FB eða í tölvupósti ef að þeir vilja flytja erindi eða vera með smiðju. Allir sem að eru með smiðju fá frítt á ráðstefnuna.
Það er óhætt að segja að ráðstefnan okkar haustið 2016 hafi verið frábær innblástur fyrir þátttakendur, nú endurtökum við leikinn.

Nánari upplýsingar má fá hér

Nýtt logo félagsins

SÁÚ – Samtök áhugafólks um útinám hafa loksins valið sér logo. Það logo sem hlaut flest atkvæði í kosningu félagsmanna má sjá hér. Hönnuður logo-sins er Birta Flókadóttir. Stjórn SÁÚ þakkar Birtu og þeim sem tóku þátt í samkeppninni kærlega fyrir þátttkökuna.

Útináms ráðstefna í sumar

Í sumar verður haldin sextánda útinámsráðstefna EOE, European seminar of the Institute of Outdoor Adventure Education and Experiential Learning. Ráðstefnan verður haldin í Plymouth á Englandi dagana 28.júní til 2.júlí.

Samtök áhugafólks um útinám hvetja félagsmenn sína til að taka þátt í ráðstefnunni og senda inn erindi. Ráðgert er að samtökin skipuleggi hópferð á ráðstefnuna, en þar fyrir utan er líklegt að 3-4 styrkt pláss séu í boði fyrir félagsmenn samtakana.

Hér eru nánari upplýsingar um ráðstefnuna

og hér er tengill á heimasíðu EOE.

Logo samkeppni

Nú er kominn tími til að vera merkileg!

Samtök áhugafólks um útinám, (www.utinam.is) efna til samkeppni um gerð að merki (lógói).

“Samtökin eru félagskapur fólks sem hefur áhuga á útinámi hverskonar. Tilgangur samtakanna er að efla útinám á Íslandi og styðja félagsmenn í því verki. Áhersla er lögð á að kynna gildi útináms og auka faglega færni, þekkingu, gæði og umræðu á því sviði. Æskilegt er að merkið endurspegli þessi gildi.”

Samkeppnin hefst 9.febrúar 2017 og loka frestur til að skila inn tillögum er 15.maí 2017. Stjórn samtakanna fer yfir tillögurnar og velur 3 tillögur fyrir almenna kosningu á Facebook síðu félagsins.

Sigurvegari samkeppninnar fær að launum 50.000 krónur.

Til að taka þátt skal senda tillögu að logoi á netfangið utinam@utinam.is

Leiðbeiningar og skilmálar:

Allar tillögur þurfa að vera tilbúnar til notkunar og skulu í fyrstu skilast sem .jpg eða sambærilegu til birtingar á Facebook. Loka útgáfu þarf að skila sem vektorteikningu, annars vegar sem .pdf skjali og hins vegar sem Illustrator skjal eða sambærilegt.

Merkið skal vera þess eðlis að það sé auðlesanlegt bæði stórt og smátt, og hafi greinilega skírskotun til starfs samtakanna. Það er mikill kostur ef tillögunni fylgja útgáfur af merkinu til mismunandi nota, svo sem í einum lit (t.d. svart eða hvítt), með og án texta og útgáfur sem ætlaðar eru til nota í láréttu og lóðréttu formi.

Stjórnin áskilur sér rétt til að útfæra vinningstillöguna í samvinnu við hönnuðinn. Stjórnin áskilur sér jafnframt rétt til að hafna öllum tillögum.

Auglýsing sem .pdf skjal

Málþing um útinám

Samtök áhugafólks um útinám hafa þann tilgang að efla útinám á Íslandi og styðja félagsmenn í því verki. Áhersla er lögð á að kynna gildi útináms og auka faglega færni, þekkingu, gæði og umræðu á því sviði. Markmiðið með málþinginu er að gefa þátttakendum praktískar hugmyndir sem þeir geta nýtt í starfi með börnum. Að loknu málþinginu verður haldin aðalfundur félagsins.

Frítt inn og allir velkomnir. Skráning á málþingið hér

Sjá auglýsingu hér

Aðalfundur SÁÚ 2017

Stjórn Samtaka áhugafólks um útinám boðar til aðalfundar félagsins þann 9. febrúar 2017. Fundurinn hefst klukkan 16:10 í Hlöðunni við frístundamiðstöðina Gufunesbæ.

Samkvæmt lögum samtakanna þarf að boða fundinn tryggilega en það er gert með tölvupósti, á heimasíðu samtakanna Utinam.is og á Facebook síðu samtakanna með viðburði.

Sérstaklega er vakin athygli á því að allir skuldlausir félagar hafa atkvæðisrétt en fundurinn er annars opin öllum. Hægt er að gera upp félagsgjaldið hjá gjaldkera á fundinum hafi það ekki verið gert áður. Árgjald var sent á alla skráða félagsmenn í janúar 2017 og ætti að hafa birst í heimabanka viðkomandi.

11. grein laganna segir:

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum samtakanna. Aðalfund skal halda árlega, eigi síðar en fyrir lok aprílmánaðar. Skuldlausir félagar eiga rétt til setu á aðalfundi með málfrelsi, tillögu- og atkvæðarétt. Hann skal boða með tryggilegum hætti með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Í fundarboði skal tilgreina fundarefni. Stjórn félagsins skipuleggur og ber ábyrgð á framkvæmd aðalfundar.

Dagskrá aðalfundar skal vera:
• Skýrsla stjórnar
• Endurskoðaðir reikningar félagsins
• Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
• Ákvörðun um árgjöld
• Lagabreytingar
• Kosning stjórnar
• Kosning skoðunarmanna reikninga
• Önnur mál

Samkvæmt 12. grein laga félagsins geta félagsmenn sent inn lagabreytingatillögur fyrir 1. Febrúar. Lögin má finna á heimsíðu félagsins utinam.is. Þegar þetta boð er sent út hafa engar slíkar tillögur borist.

12. grein
Aðalfundur er lögmætur ef rétt er til hans boðað. Lögum samtakanna má aðeins breyta á aðalfundi. Tillögur um lagabreytingar skulu berast stjórn skriflega fyrir 1. febrúar ár hvert og skal þess getið í aðalfundarboði. Einfaldur meirihluti ræður í öllum atkvæðagreiðslum í samtökunum.

Stjórn leggur fram eftirfarandi tillögur á fundinum:

Ákvörðun um árgjöld:

Lagt er til að árgjald verði það sama fyrir næsta starfsár og árið 2017. 1500 krónur. Árgjaldið veðri lagt á í janúar 2018 líkt og í ár. Það verði sent inn í heimabanka félagsmanna sem valgreiðsla og að þjónustugjald banka leggist ofan á það.

Kosning Stjórnar:

Lög félagsins segja:

6. gr.
Stjórn Samtaka áhugafólks um útinám skal skipuð fimm aðalmönnum (formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda) og tveimur til vara. Á oddatölu ári skulu formaður, ritari og meðstjórnandi kosnir til tveggja ára, hitt árið eru varaformaður og gjaldkeri kosnir. Varamenn stjórnar, skoðunarmaður reikninga ásamt öðrum til vara skulu kosnir árlega. Formaður boðar stjórnarmenn á stjórnarfundi a.m.k. tvisvar á ári og oftar ef þurfa þykir og annast daglega umsjón félagsins.

Samkvæmt því skal í ár kjósa formann, ritara og meðstjórnanda til tveggja ára.

Formaður hefur óskað eftir því að stíga til hliðar en varaformaður Hafsteinn Grétarsson hefur gefið kost á sér í það verkefni.

Ritari, Guðmundur Finnbogason hefur gefið kost á sér til áframhaldandi setu.

Meðstjórnandi, Klara Öfjörð Sigfúsdóttir hefur gefið kost á sér til áframhaldandi setu.

Fráfarandi formaður, Jakob Fríman Þorsteinsson, hefur gefið kost á sér til setu sem varaformaður í stað fráfarandi varaformans.

Varamennirnir Hrafnhildur Sigurðardóttir og Ævar Aðalsteinsson hafa bæði gefið kost á sér til áframhaldandi setu.

Skoðunarmenn reikninga þau Nils Óskar Nilsson og Ásgerður Ólafsdóttir hafa bæði gefið kost á sér til áframhaldandi setu.

Hafi félagsmenn áhuga á að gegna þessum embættum eru þeir hvattir til að gera grein fyrir sér fyrir fundinn á facebook viðburði eða á fundinum sjálfum.

Breytingar á lögum og nafni samtakanna

Á aðalfundi samtakanna sem var haldinn 17. septmeber s.l. voru breytingar á lögum samtakanna samþykktar. Innifalið í þeim breytingum voru breytingar á nafni félagsins. Félagið heitir núna Samtök áhugafólks um útinám. Í lögum samtakanna segir núna að

“… tilgangur samtakanna er að efla útinám á Íslandi og styðja félagsmenn í því verki. Áhersla er lögð á að kynna gildi útináms og auka faglega færni, þekkingu, gæði og umræðu á því sviði.”

Lög félagsins má sjá hér.

Bréf til Mennta- og menningarmálaráðuneytis

Ályktun Útinámsráðstefnunnar 2016 á Úlfljótsvatni 17. og 18. september

Helgina 17. og 18. september hélt Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni og Samtök áhugafólks um útinám ráðstefnu um útinám. Ráðstefnan var styrkt af Evrópu unga fólksins og Erasmus+. Ráðstefnan tókst með eindæmum vel en yfir 100 kennarar af öllum skólastigum, tómstundafræðingar og annað fagfólk sóttu hana. Fyrirlesarar komu frá Tékklandi, Slóvenínu, Englandi, Skotlandi, Pólandi og Íslandi og héldu yfir 30 erindi og smiðjur. Fjallað var um útinám á ýmsum sviðum, allt frá útieldun og útistærðfræði yfir í kynningar á nýjum alþjóðlegum rannsóknum á sviði útináms.

Mennta-og menningarmálaráðuneytinu var boðið að senda fulltrúa á ráðstefnuna en hafði því miður ekki tök á því. Kveðja ráðuneytisins var flutt fundarmönnum við upphaf ráðstefnunnar. Ráðuneytið óskaði hins vegar eftir tillögum og hugmyndum frá ráðstefnugestum um málefni útináms. Það er sönn ánægja að verða við þeirri ósk.

Útinám hefur fjölbreyttu og mikilvægu hlutverki að gegna í skóla- og frístundastarfi, þ.e. í formlegu og óformlegu námi. Fjölmargar rannsóknir hafa leitt í ljós mikilvægi þess m.a. er varðar persónulegan- og félagslegan þroska, skilning okkar á umhverfi og náttúru sem og til eflingar heilbrigðis og líkamlegrar færni. Útinám hefur enn fremur mjög jákvæð áhrif á annað nám og stuðlar þannig að bættum árangri á öðrum sviðum menntunar sem og aukinni ánægju í námi.

Þátttakendur ráðstefnunnar leggja fram eftirfarandi tillögur og hugmyndir:

Mennta- og menningarmálaráðuneytið marki stefnu um útinám í skóla- og frístundastarfi. Mikilvægt er að læra af reynslu annarra landa þar sem unnið er með útimenntun með markvissum hætti t.d. í Tékklandi, Slóveníu, Skotlandi, Ástralíu og Svíþjóð.
Innleiða útinám með markvissum hætti í námskrá og hafa til hliðsjónar stöðu útnáms í skosku námskránni. Vænleg leið er að gera sérrit um útinám sem og að skilgreina ákveðið marga daga á ári sem nemendur í grunnskóla eiga rétt á að dvelja í skólabúðum.
Styðja þarf með sérstökum hætti við starfsemi skólabúða og við námsferðir nemenda enda sýna rannsóknir að þær geta skilað miklum árangri, styrkt skólastarf og stuðla að velferð ungmenna.
Vinna þarf markvisst að auknum gæðum í starfi skólabúð m.a. með rannsóknum og markvissum viðmiðum um gæði (taka t.d. mið að viðmiðum um “brilliant residential” sem er afrakstur rannsókna í Englandi www.learningaway.org.uk). Þessi viðmið stuðla m.a. að markvissari tengslum skólastarfs við það uppeldisstarf sem fram fer í skólabúðum.
Nemendum og kennurum sé gert kleift að fara í námsferðir og skólabúðir án þess að fjárhagsleg staða hindri það. Leita þarf fjölbreyttra leiða t.d. styrkja starfsemi skólabúða beint og fjármagna laun kennara.
Mikilvægt er að útinám sé liður í menntun fagfólks á sviði uppeldis-, tómstunda- kennslufræða.
Í tengslum við ráðstefnuna var skerpt á áherslum samtaka náttúru- og útiskóla sem fól í sér að breyta nafni samtakanna og skilgreina betur tilgang og leiðir. Samtökin heita nú Samtök áhugafólks um útinám. Nánari upplýsingar eru á www.utinam.is Samtökin lýsa yfir vilja sínum að eiga samstarf við Mennta- og menningarmála-ráðuneytið um þess mál.
Samtökin lýsa yfir vilja sínum að eiga samstarf við Mennta- og menningarmála-ráðuneytið um þess mál.