Aðalfundur SÁÚ 2017

Stjórn Samtaka áhugafólks um útinám boðar til aðalfundar félagsins þann 9. febrúar 2017. Fundurinn hefst klukkan 16:10 í Hlöðunni við frístundamiðstöðina Gufunesbæ.

Samkvæmt lögum samtakanna þarf að boða fundinn tryggilega en það er gert með tölvupósti, á heimasíðu samtakanna Utinam.is og á Facebook síðu samtakanna með viðburði.

Sérstaklega er vakin athygli á því að allir skuldlausir félagar hafa atkvæðisrétt en fundurinn er annars opin öllum. Hægt er að gera upp félagsgjaldið hjá gjaldkera á fundinum hafi það ekki verið gert áður. Árgjald var sent á alla skráða félagsmenn í janúar 2017 og ætti að hafa birst í heimabanka viðkomandi.

11. grein laganna segir:

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum samtakanna. Aðalfund skal halda árlega, eigi síðar en fyrir lok aprílmánaðar. Skuldlausir félagar eiga rétt til setu á aðalfundi með málfrelsi, tillögu- og atkvæðarétt. Hann skal boða með tryggilegum hætti með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Í fundarboði skal tilgreina fundarefni. Stjórn félagsins skipuleggur og ber ábyrgð á framkvæmd aðalfundar.

Dagskrá aðalfundar skal vera:
• Skýrsla stjórnar
• Endurskoðaðir reikningar félagsins
• Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
• Ákvörðun um árgjöld
• Lagabreytingar
• Kosning stjórnar
• Kosning skoðunarmanna reikninga
• Önnur mál

Samkvæmt 12. grein laga félagsins geta félagsmenn sent inn lagabreytingatillögur fyrir 1. Febrúar. Lögin má finna á heimsíðu félagsins utinam.is. Þegar þetta boð er sent út hafa engar slíkar tillögur borist.

12. grein
Aðalfundur er lögmætur ef rétt er til hans boðað. Lögum samtakanna má aðeins breyta á aðalfundi. Tillögur um lagabreytingar skulu berast stjórn skriflega fyrir 1. febrúar ár hvert og skal þess getið í aðalfundarboði. Einfaldur meirihluti ræður í öllum atkvæðagreiðslum í samtökunum.

Stjórn leggur fram eftirfarandi tillögur á fundinum:

Ákvörðun um árgjöld:

Lagt er til að árgjald verði það sama fyrir næsta starfsár og árið 2017. 1500 krónur. Árgjaldið veðri lagt á í janúar 2018 líkt og í ár. Það verði sent inn í heimabanka félagsmanna sem valgreiðsla og að þjónustugjald banka leggist ofan á það.

Kosning Stjórnar:

Lög félagsins segja:

6. gr.
Stjórn Samtaka áhugafólks um útinám skal skipuð fimm aðalmönnum (formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda) og tveimur til vara. Á oddatölu ári skulu formaður, ritari og meðstjórnandi kosnir til tveggja ára, hitt árið eru varaformaður og gjaldkeri kosnir. Varamenn stjórnar, skoðunarmaður reikninga ásamt öðrum til vara skulu kosnir árlega. Formaður boðar stjórnarmenn á stjórnarfundi a.m.k. tvisvar á ári og oftar ef þurfa þykir og annast daglega umsjón félagsins.

Samkvæmt því skal í ár kjósa formann, ritara og meðstjórnanda til tveggja ára.

Formaður hefur óskað eftir því að stíga til hliðar en varaformaður Hafsteinn Grétarsson hefur gefið kost á sér í það verkefni.

Ritari, Guðmundur Finnbogason hefur gefið kost á sér til áframhaldandi setu.

Meðstjórnandi, Klara Öfjörð Sigfúsdóttir hefur gefið kost á sér til áframhaldandi setu.

Fráfarandi formaður, Jakob Fríman Þorsteinsson, hefur gefið kost á sér til setu sem varaformaður í stað fráfarandi varaformans.

Varamennirnir Hrafnhildur Sigurðardóttir og Ævar Aðalsteinsson hafa bæði gefið kost á sér til áframhaldandi setu.

Skoðunarmenn reikninga þau Nils Óskar Nilsson og Ásgerður Ólafsdóttir hafa bæði gefið kost á sér til áframhaldandi setu.

Hafi félagsmenn áhuga á að gegna þessum embættum eru þeir hvattir til að gera grein fyrir sér fyrir fundinn á facebook viðburði eða á fundinum sjálfum.

Breytingar á lögum og nafni samtakanna

Á aðalfundi samtakanna sem var haldinn 17. septmeber s.l. voru breytingar á lögum samtakanna samþykktar. Innifalið í þeim breytingum voru breytingar á nafni félagsins. Félagið heitir núna Samtök áhugafólks um útinám. Í lögum samtakanna segir núna að

“… tilgangur samtakanna er að efla útinám á Íslandi og styðja félagsmenn í því verki. Áhersla er lögð á að kynna gildi útináms og auka faglega færni, þekkingu, gæði og umræðu á því sviði.”

Lög félagsins má sjá hér.

Bré til Mennta- og menningarmálaráðuneytis

Ályktun Útinámsráðstefnunnar 2016 á Úlfljótsvatni 17. og 18. september

Helgina 17. og 18. september hélt Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni og Samtök áhugafólks um útinám ráðstefnu um útinám. Ráðstefnan var styrkt af Evrópu unga fólksins og Erasmus+. Ráðstefnan tókst með eindæmum vel en yfir 100 kennarar af öllum skólastigum, tómstundafræðingar og annað fagfólk sóttu hana. Fyrirlesarar komu frá Tékklandi, Slóvenínu, Englandi, Skotlandi, Pólandi og Íslandi og héldu yfir 30 erindi og smiðjur. Fjallað var um útinám á ýmsum sviðum, allt frá útieldun og útistærðfræði yfir í kynningar á nýjum alþjóðlegum rannsóknum á sviði útináms.

Mennta-og menningarmálaráðuneytinu var boðið að senda fulltrúa á ráðstefnuna en hafði því miður ekki tök á því. Kveðja ráðuneytisins var flutt fundarmönnum við upphaf ráðstefnunnar. Ráðuneytið óskaði hins vegar eftir tillögum og hugmyndum frá ráðstefnugestum um málefni útináms. Það er sönn ánægja að verða við þeirri ósk.

Útinám hefur fjölbreyttu og mikilvægu hlutverki að gegna í skóla- og frístundastarfi, þ.e. í formlegu og óformlegu námi. Fjölmargar rannsóknir hafa leitt í ljós mikilvægi þess m.a. er varðar persónulegan- og félagslegan þroska, skilning okkar á umhverfi og náttúru sem og til eflingar heilbrigðis og líkamlegrar færni. Útinám hefur enn fremur mjög jákvæð áhrif á annað nám og stuðlar þannig að bættum árangri á öðrum sviðum menntunar sem og aukinni ánægju í námi.

Þátttakendur ráðstefnunnar leggja fram eftirfarandi tillögur og hugmyndir:

 • Mennta- og menningarmálaráðuneytið marki stefnu um útinám í skóla- og frístundastarfi. Mikilvægt er að læra af reynslu annarra landa þar sem unnið er með útimenntun með markvissum hætti t.d. í Tékklandi, Slóveníu, Skotlandi, Ástralíu og Svíþjóð.
 • Innleiða útinám með markvissum hætti í námskrá og hafa til hliðsjónar stöðu útnáms í skosku námskránni. Vænleg leið er að gera sérrit um útinám sem og að skilgreina ákveðið marga daga á ári sem nemendur í grunnskóla eiga rétt á að dvelja í skólabúðum.
 • Styðja þarf með sérstökum hætti við starfsemi skólabúða og við námsferðir nemenda enda sýna rannsóknir að þær geta skilað miklum árangri, styrkt skólastarf og stuðla að velferð ungmenna.
 • Vinna þarf markvisst að auknum gæðum í starfi skólabúð m.a. með rannsóknum og markvissum viðmiðum um gæði (taka t.d. mið að viðmiðum um “brilliant residential” sem er afrakstur rannsókna í Englandi www.learningaway.org.uk). Þessi viðmið stuðla m.a. að markvissari tengslum skólastarfs við það uppeldisstarf sem fram fer í skólabúðum.
 • Nemendum og kennurum sé gert kleift að fara í námsferðir og skólabúðir án þess að fjárhagsleg staða hindri það. Leita þarf fjölbreyttra leiða t.d. styrkja starfsemi skólabúða beint og fjármagna laun kennara.
 • Mikilvægt er að útinám sé liður í menntun fagfólks á sviði uppeldis-, tómstunda- kennslufræða.
 • Í tengslum við ráðstefnuna var skerpt á áherslum samtaka náttúru- og útiskóla sem fól í sér að breyta nafni samtakanna og skilgreina betur tilgang og leiðir. Samtökin heita nú Samtök áhugafólks um útinám. Nánari upplýsingar eru á www.utinam.is Samtökin lýsa yfir vilja sínum að eiga samstarf við Mennta- og menningarmála-ráðuneytið um þess mál.

Samtökin lýsa yfir vilja sínum að eiga samstarf við Mennta- og menningarmála-ráðuneytið um þess mál.

Aðalfundur SNÚ 2016

Stjórn SNÚ boðar til aðalfundar þann 17. september klukkan 17:30 að Úlfljótsvatni. Fundurinn verður haldinn í lok ráðstefnu um útinám sem fram fer á Úlfljótsvatni sömu helgi. Félagsmenn eru hvattir til að mæta og taka afstöðu til málefna félagsins.

Dagskrá fundarins:

 1. Setning fundar og ávarp formanns, Jakob Fríman Þorsteinsson
 2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 3. Kjörgengi fundarmanna kannað
 4. Lagabreytingar kynntar
  • Afbrigða leitað vegna lagabreytinga
  • Lagabreytingar ræddar
  • Kosning um lagabreytingartillögur
 5. Kosning stjórnarmanna
  1. Kosning varaformans
  2. Kosning gjaldkera
  3. Kosning meðstjórnanda (til eins árs, vegna forfalla)
  4. Kosning tveggja varamanna (til eins árs)
  5. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga (til eins árs)
 6. Ákvörðun félagsgjalda.
 7. Tillaga að nefndum á vegum félagsins og kosning í þær.
  1. Upplýsinganefnd – heldur utan um heimasíðu félagsins og Facebook hóp félagsins
   1. Þrír til fimm kjörnir í nefndina til eins árs í senn
  2. Ráðstefnunefnd – heldur utan um námskeið, málstofur og ráðstefnur félagsins
   1. Þrír til fimm kjörnir í nefndina til eins árs í senn.
  3. Alþjóðanefnd – heldur utan um alþjóðasamskipti félagsins.
   1. Þrír til fimm kjörnir í nefndina til eins árs í senn.
 8. Kynning á drögum að dagskrá félagsins fyrir árið 2017.
 9. Önnur mál.
  • Afhending á léninu Útinám.is. Jakob Fríman Þorsteinsson gefur samtökunum lénið utinam.is.

Útinámsráðstefna í haust

SNÚ í samstarfi við Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni á Úlfljótsvatni í haust, heldur Útinámsráðstefnu á Úlfljótsvatni dagana 17. og 18. september 2016. Ráðstefnan er fyrir allt skólafólk sem hefur áhuga á útikennslu sem og aðra. Allir eru velkomnir. Fjölmörg erindi verða í boði ásamt verklegum smiðjum. Fyrirlesarar og leiðbeinendur eru frá Íslandi, Englandi, Pólandi, Tékklandi og Slóveníu. Gestir ráðstefnunnar geta komið annan eða báða dagana. Ráðstefnugjaldið verður 3000 krónur fyrir annan daginn eða 5000 fyrir báða. Innifalið í því eru allar smiðjur og fyrirlestrar, léttur hádegisverður báða dagana og kaffi á meðan á ráðstefnunni stendur.
Sjá auglýsingu hér

Sala miða fer af stað fljólega.

Frekari upplýsingar verða birtar á facebook síðu viðburðarins: https://www.facebook.com/events/1799084673643398/